Ábendingavefur fyrir endurskoðun skólastefnu

Sveitarfélagið Árborg hefur opnað ábendingavef í tengslum við endurskoðun á skólastefnu sveitarfélagsins. Vefurinn er gagnvirkur eins og vinsælir samskiptavefir og geta íbúar á öllum aldri skráð beint og milliliðalaust inn ábendingar og hugmyndir um skólamál sem þeir vilja koma á framfæri. Á vefnum er opinn flokkur fyrir hugmyndir en einnig nokkrir efnisflokkar sem hægt er að bregðast við með athugasemdum. Þá er hægt að taka afstöðu til hugmynda sem þegar eru komnar á vefinn með því að smella á þumalinn í viðkomandi athugasemd.  Æskilegt er að sem flestir taki þátt í stefnumótunarvinnunni á þessum nýja ábendingavef.

Hugmyndir og ábendingar sem fram komu á fundi foreldraráða leikskóla og skólaráða grunnskóla, sem haldinn var fimmtudaginn 2. febrúar, hafa verða settar á vefinn í heild sinni og nokkrar þeirra einnig sem athugasemdir sem hægt er að bregðast við. Þá verður annað efni, sem á eftir að berast, birt á ábendingavefnum, svo sem frá hugarflugsfundi nemendafélaga grunnskólanna.  Óskað er eftir að fólk hafi athugasemdir sínar ekki á mjög persónulegum nótum.